fimmtudagur, janúar 28, 2010

í dag braut ég 3000 plús múrinn ! það er að segja að ég er búinn að skanna og skrásetja yfir 3000 myndir, einungis 6000 eftir plús öll albúm og "lausar" myndir, ca... hmmm nokkur þúsund til viðbótar. Ari Trausti er fortíð og framundan Jón Kalman Stefánsson. Ég las Skurðir í rigningu fyrir alllöngu síðan, þannig að ég hleyp í gegnum hana og svo er það bara að klára þessa trílógíu hjá honum, Sumarið bakvið brekkuna og Birtan í fjöllunum. Já þetta lítur allt saman út fyrir lestrar ár, þar sem ég er ekki lengur í námi og sakna þess dálítið að fletta síðum (netfjölmiðlar eru bara ekki að uppfylla þá tilfinningu). Jæja brauðið er að bakast.
Tékka á þessu http://www.bookalicious.net/ ungur maður sem að býr hérna í Sisimiut er með þessa síðu, áhugavert.

miðvikudagur, janúar 27, 2010

Jæja þessa stundina er ég að bíða eftir því að samstarfsmaður minn komi aftur á safnið. Af öðru að segja þá var ég að klára nýju bókina eftir Dan Brown, ágætis snúningur hjá honum, núna er ég að lesa nýju bókina hans Ara Trausta, súrreal ferðalag manns frá Síberíu í suður (ég er kominn að landamærum Kína). Ég hef ekki lesið annað eftir Ara Trausta en maður tekur eftir því í lýsingum hans að hann er vanur að "ganga", vantar ekkert á orðaforðann á þeim bænum. Býst fastlega við því að klára bókina á eftir, enda einungis tæplega tvöhundruð síðna verk. Framundan er smá undirbúningslestur fyrir Nuuk-ferð, þá á að kíkja á sýningu eftir Pia Arke, Tupilakosaurus. Ég var svo lánsamur að kynnast henni aðeins, þegar að hún var leiðbeinandi minn fyrir lokaverkefnið í Fatamorgana, snillingur sem því miður er fallinn frá. Núna er ég að glugga í grein eftir Matthias Hvass Borello í Neriusaaq um sýninguna hennar í Nuuk.
Af vinnutengdu efni er það að frétta að einn starfsmaðurinn hér á safninu ákvað skyndilega að segja af sér, með augnabliks fyrirvara, það þýðir að mér var hreinlega plantað á skrifstofuna. Það þýðir að allar komandi sýningar fá að bíða þar til að við finnum annan starfsmann nú eða konu, sem mun taka að sér þessa almennu skrifstofuvinnu. Ég er ekki hannaður fyrir langtíma setu, nema þó þegar að ég skanna og vinn myndir, þá get ég setið tímunum saman. Jæja hann hlýtur að fara að koma maðurinn, þannig að ég hef þetta ekki lengra í bili.
Mæli með http://www.kulturplakaten.dk/ það er að segja fyrir þá sem að búa í Danmörku, annars er alltaf gaman að glugga í http://www.menning.is/default.asp?sid_id=14547&tre_rod=001001&tId=1
Ég ætla mér ekki að krítisera neina heimasíðu hérna nema þá helst okkar eigin, sem er úr sér gengin risaeðla og virðist með öllu móti vera ódrepileg !!

föstudagur, janúar 15, 2010

Fór á fund í gær... svona klúbbfund... ég er sumsé búinn að trakka nördanna hérna í Sisimiut. Ljósmyndaklúbburinn var með myndasýningu í gær í skóla tvö og mætti ég þar fullur af "já en ég kem sko frá Íslandi og nam í Höfn..." nei grín. En ég bjóst samt við náttúruorgíu af verstu sort enda búinn að sjá þær ófáar grænlensku heimasíðurnar. Nema hvað þetta var bara alveg ljómandi gaman, þarna var öll flóran, tækni nördar og ungir listamenn. Já þetta kom skemmtilega á óvart og minnti mig dálítið á Íslenska Fjallahjóla Klúbbinn, algjört sullummall af allsskonar fólki. Það er bara snilld. Ég fékk allavegana "blóð á tennurnar" eins og Danir segja. Ég er reyndar ekki að taka neinar myndir í dag og ástæðan fyrir því er sú að ég er að skanna myndir fyrir safnið, átta tíma á dag, skanna, skera til og skrásetja. Þannig að það er ekki mikið pláss eftir í hausnum á menni þegar að maður kemur heim eftir svoleiðis vinnudag. En það kemur.

sunnudagur, janúar 03, 2010

jólin bara að klárast og það er komið nýtt ár. já það er aldeilis farturinn á þessu núna uppá síðkastið. þetta voru rólegheitar jól sem ég naut til botns með fjölskyldunni, okkur tókst það sem maður talar alltaf um en getur ekki framkvæmt af einhverjum ástæðum og það var að klæða sig ekki á jóladag. náttföt á línuna og ullarsokkar, ef ég hefði vitað hversu miklu meira maður fær úr jóladeginum á þennan máta þá hefði ég verið búinn að framkvæma þennan gjörning fyrir löngu og sett það sem skilyrði að það er bannað að yfirgefa húsnæði sitt á jóladag og það er stranglega bannað að koma í heimsókn, nema að maður (eða kona) mætir í náttfötum og hafi svona eins og eina bók með, nú eða spil. Björn fékk matador í möndlugjöf, sem þýðir að á næstu misserum á hann eftir að kynnast yfirtökum, sektum og lóðabraski, eitthvað sem öll sex ára börn verða að kynnast. því fyrr því betra... nei nei við erum soddan sósíalistar hérna að við vinnum öll, eða töpum saman... einmitt. sem minnir mig á það að ég er ekki búinn að finna mér backgammon félaga hérna í Sisimiut. þakka bibba og Önnu Beggu enn og aftur fyrir þá snilldargjöf. en það var einmitt í páskaferðinni til Noregs árið 2000 (minnir mig), með hrúgu af snilldarfólki að ég var kynntur fyrir backgammon og hef verið ósigrandi síðan (það er kannski best að Jakob Akureyringur og Christian Ravn lesi þetta ekki og jafnvel Örn Ingi). allavegana þá er komið árið 2010 og ég sé fram á hrópandi gleði hvern einasta dag sem sólin hækkar á lofti alveg fram á sumar. ekkert áramótaheit núna, en við erum búin að lofa hvort öðru að ganga á þau tvö fjöll sem standa okkur næst, Kerlingarhettan í suðri og Prestafjallið í norðri.