sunnudagur, mars 15, 2009

Sunnudagur: já það var grátt í morgun klukkan fimm þegar að tveir ungir drengir (Flóki og Björn) vöktu mig, en hvað var hægt að segja, þeir voru bara spenntir að byrja daginn. Mér tókst þó að telja þeim trú um að það væri eiginlega ekki kominn dagur. Varði stutt því skömmu eftir það vaknar Úlfur og það þýðir víst ekkert að rökræða við þann unga dreng. Borðað og leikið, farið út á völl að spila þeirra útgáfu af fótbolta, sem gengur út að það að það er sama hvernig fer þá vinna þeir alltaf... Kristján kom síðan og dró eldri drengina með sér í bíó. Úlfurinn lagði sig og þá náði ég einum powernap, ekki slæmt. Vöfflur voru bakaðar úr hráefnum sem Hjalti og Linda voru beðin um að versla í dojnaranum, af því að ég gleymdi því í minni verslunarferð 30 mínútum áður... Hakkogspakk og svo átti það að gerast, "klippingin", en því miður dó verkfærið mitt, þannig að sá yngri endaði á að líta eins og finnskur íshokkímaður og sá eldri... ja hann þarf ekki að skammast sín á morgun þegar að hann mætir í leikskólann. Baðtími, þar notaði sá yngri tækifærið og sprændi yfir "áðurhvíta" sófann okkar á meðan að ég var að þvo hárið á þeim eldri, algjör farsi a la Dario Fo. Sjálfur horfði ég á ræmu þegar búið var að svæfa drengina og belgja mig út með poppi. Nú er víst kominn háttatími og á morgun þegar að ég vakna þá veit ég að ég fæ að sjá þig um kvöldið og tek á móti þér með ítalskri kartöfflusúpu.
Þetta verður því síðasta færsla í dagbókarformi, í bili...

laugardagur, mars 14, 2009

Laugardagur: Vorið bankaði aftur uppá hér á Amager, sól og blíða. Eftir morgunáhorf (kl:07) og smá rokk fórum við drengir út að spóka okkur. Núna sit ég og bíð eftir því að Úlfur vakni. Gurótarkakan er í ofninum og ég er búinn að hræra duglega "portion" af kremi... Hjá okkur situr Flóki á meðan að faðir hans syngur "you never walk alone", hann er væntanlegur hér á eftir og það lítur allt út fyrir sameiginlegan kvöldmat, spagetti og kjötsósa. Sjálfur er ég að reyna að véla menn til að koma í heimsókn í kvöld til að spila smá pez. Tassa (það var það) eins og maður segir á grænlensku. Erum að velta því fyrir okkur hvort við eigum að sleppa júdó á morgun og taka daginn snemma með rölti út á Volden, það kemur síðar í ljós. Annars allt gott að frétta héðan.

föstudagur, mars 13, 2009

Smá dagbók fyrir Ingibjörgu sem er á fullu í félagsmálum á Íslandi sem stendur.
Föstudagur: Björn vaknar "má ég horfa", ég "nei það er föstudagur", Björn "ó, jæja". Borðuðum það sama og venjulega og sömu samtölin endurtekin við morgunverðarborðið. Björn "...þessi með fjögur sverðin og þá myndi ég höggva af honum hendina með sverðinu mínu...", ég "mhmm já það væri rosalegt".
Hjólað og skilað, fyrst Björn sem varla hafði tíma til að kveðja síðan Úlfur sem stóð gleiðfættur með lest (babú) í hægri hendi, þegar að ég kvaddi hann og þá vinstri teygða langt upp í loft, nýr kveðjusiður hjá þeim yngri. Sjálfur fór ég að þýða í dag og er að tefja tímann áður en ég sæki drengina.
Kvöldið býður uppá Disney og Krysfaktor eins og einn kýs að kalla það ágæta sjónvarpsefni. Þeir sofna svo væntanlega um níu og þá dreg ég fram Dexter þættina og kúri umvafinn semíflís í áðurvar hvíta sófanum okkar... sakna þín.