mánudagur, desember 14, 2009

Ég sé fram á krefjandi tíma framundan, ekki skilið á þann máta að það sé pressa á manni. Þvert á móti eru þau verkefni sem ég þarf að leysa á næstu misserum sniðin að mínum getum. Það er þá kannski engin pressa eftir alltsaman... jú maður verður að vera á tánum svona af og til, annars fer maður að slóra með hlutina og það eru ekki góð vinnubrögð.
Ég er búinn að taka fram Mamiya vélina mína, tæki sem tekur 6X7 á 120 filmu, snilldarvél sem ég hef vanrækt í alltof mörg ár. Á safninu erum við að gera nýjar geymslur fyrir safnmuni, þar sem við aðskiljum safnmuni með það í huga að skapa bestu geymslumöguleika, það er að segja að við aðskiljum pappíra, filmur, ljósmyndir, málverk, myndupptökur, hljóðupptökur, klæðnað og "almenna" safnhluti. Verkefni sem tekur lengri tíma en maður heldur af þeirri ástæðu að við verðum að panta allt sem þurfa þykir frá Danmörku (fyrsta sendingin var síðan röng, það er að segja að við fengum sent vitlaust hillukerfi). Að sama skapi er rýmið sem höfum takmarkað að mörgu leyti. Þetta eru allt friðaðar byggingar sem eru komnar vel á aldur, ekki skilið á þann máta að húsnæðið sé að hrynja, heldur að það er takmarkað hversu mikið við megum eiga við húsnæðið.
Jæja nú er frúin kominn, þannig að ég hætti hér í bili. Fleiri fréttir héðan úr Sisimiut síðar.